Innlent

Áframhaldandi veiðibanni mótmælt

Áframhaldandi rjúpnaveiðibann gæti haft alvarleg áhrif á aðra dýrastofna, og leitt til óhóflegrar veiði, og dýrmætu veiðikortakerfi yrði stefnt í hættu. Þetta kom fram á fjölmennum fundi Skotveiðifélags Íslands um rjúpuna, sem haldinn var í Norræna húsinu í gærkvöldi. Hátt í 200 félagar Skotveiðifélags Íslands mættu á fundinn og var mikill hiti í mönnum vegna rjúpnaveiðibannsins, sem nú hefur staðið í rúmt ár. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka sátu fundinn. Ólafur K. Níelsen, fuglafræðingur, kynnti nýja skýrslu Náttúrufræðistofnunar um stöðu rjúpnastofnsins og greindi meðal annars frá því að stofninn hefði tekið vel við sér og að fjölgað hefði í stofni eldri rjúpna. Fram kom að bannið hefði einnig haft margvísleg neikvæð áhrif. Til að mynda hefði veiði annarra dýrastofna, á borð við gæs, aukist til muna, og höfðu menn áhyggjur af því að hún gæti orðið óhófleg. Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, segir að bannið hafi einnig haft slæm áhrif á veiðikortakerfið, sem innihaldi upplýsingar um það magn sem veitt sé og hvar sé veitt, en þó nokkuð hafi borið á því að menn skili vísvitandi röngum upplýsingum, til þess að mótmæla rjúpnaveiðibanninu. Þannig hafi fjárstreymi til veiðikortasjóðs dregist saman um 30 prósent á einu ári, en fyrir féð eru stundaðar rannsóknir á villtum veiðidýrum. Sigmar segir kerfið afar dýrmætt. Sigmar segir að ef kerfið hrynji þá muni íslendingar ekki geta stundað sjálfbærar veiðar úr íslenskum dýrastofnum.Hann segir gríðarlega ósátt vera með bannið meðal veiðimanna, ekki síst vegna þess að ekkert samráð hafi verið haft við veiðimenn þegar það var ákveðið, né heldur ráðgefandi stofnanir eins og Umhverfisstofnun. Sigmar segir að til þess að ná sáttum veiðimanna séu menn tilbúnir að leggja á sig työluverðar fórnir og hefja veiðar við fyrsta tækifæri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×