Innlent

Óðu ána upp að mitti

Fjórir franskir ferðamenn sem leit var hafin að skiluðu sér til byggða heilir á húfi rétt eftir klukkan tólf í hádeginu í gær. Frakkarnir höfðu bókað sig á Hótel Rangá í fyrradag og skilið farangur sinn eftir á hótelherbergjunum. Lögðu þeir síðan af stað í bílferð en ekki var vitað hvert ferð þeirra var heitið. Þegar fólkið hafði ekki skilað sér inn á hótelið klukkan átta í gærmorgun var haft samband við lögregluna á Hvolsvelli. Við athugun lögreglu kom í ljós að Frakkarnir höfðu sýnt því áhuga við ferðaskrifstofu að skoða Heklu. Björgunarsveitir voru því kallaðar út um klukkan ellefu og hófu leit á svæðinu í kringum Heklu. Síðar kom í ljós að Frakkarnir höfðu farið inn í Landmannalaugar, þaðan inn að Eldgjá og að Ófærufossi. Í bakaleiðinni festu þeir bíl sinn í ánni Ófæru og þurftu að vaða upp í mitti til að komast úr ánni. Þaðan gengu þeir um átta kílómetra að skála í Hólaskjóli þar sem þeir eyddu nóttinni. Í gærmorgun hittu Frakkarnir hollenskt par við skálanum sem keyrði þá til byggða. Á meðfylgjandi mynd má sjá skálann í Landmannalaugum en þangað fóru ferðamennirnir áður en þeir fóru inn að Eldgjá og að Ófærufossi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×