Innlent

Fyrirtæki huga að barnagæslu

Fyrirtækið Össur ætlar að líta til samkomulags Íslandsbanka og Sjóvá-Almennar við Kennarasambandið og láta foreldrafélag fyrirtækisins um að skipuleggja barnapössun komi til verkfalls. Fleiri fyrirtæki huga að barnagæslu fyrir sína starfsmenn. Þegar ljóst varð að Kennarasambandið teldi Íslandsbanka og Sjóvá-Almennar verkfallsbrjóta byðu þeir starfsmönnum upp á barnagæslu í verkfalli kennara ákváðu fyrirtækin að leysa málin á annan veg. Foreldrafélag var stofnað innan fyrirtækjanna og áform um að börnin sæki dagvistun í Heilsuskóla standa. Fyrirtækin ræddu breytt fyrirkomulag við Kennarasamband Íslands í síma í gær. Jón Þórisson, aðstoðarforstjóri Íslandsbanka, segir foreldrafélagið væntanlega skoða í framhaldinu hvernig það ætli að fjármagna barnagæsluna. Það hafi ekki verið rætt á milli þeirra. Þau leiti hugsanlega til starfsmannafélagsins, jafnvel fyrirtækjanna: "Ef leitað verður eftir fjárstuðningi finnst mér rétt að útiloka það ekki." Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, er sáttur við samskitpin við Íslandsbanka. Hann segir í lagi ef fyrirtækin hlaupi undir bagga með foreldrafélögum sem sjái um dagvistun barna. Grundvallarmunur sé á því hvort foreldrafélög fyrirtækja eða fyrirtækin sjálf standi að barnagæslunni. Kennarasambandið skipti sér ekki meira að þeim málum. Fyrirtækið Össur ætlar að líta til samkomulags Íslandsbanka og Sjóvá-Almennar við Kennarasambandið og láta foreldrafélag fyrirtækisins um að skipuleggja barnagæslu komi til verkfalls. "Ég skoðaði vef Kennarasambandsins þar sem tilkynning bankans er kynnt án athugasemda. Ef að þetta er viðurkennd lausn gerum við slíkt hið sama," segir Jón Kr. Gíslason, starfsmannastjóri Össurar. Heimildir blaðsins herma að fleiri fyrirtæki séu að huga að barnagæslu fyrir sína starfsmenn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×