Innlent

Rússinn útskrifaður af gjörgæslu

Áður óþekktar boðleiðir voru notaðar þegar óskað var eftir að rússneskur sjóliði, sem slasaðist um borð í herskipi djúpt suður af landinu í gær, yrði sóttur og fluttur á sjúkrahús hér á landi. Skipherrann á herskipinu sem sjóliðinn er á hafði samband við rússneska sendiráðið í Reykjavík og bað það að útvega aðstoð. Það hafði samband við bandaríska sendiráðið sem aftur kom óskinni áfram til Varnarliðsins sem sendi tvær þyrlur af stað. Varnarliðið óskaði svo efitr því við Landhelgisgæsluna að hún sendi fylgdarflugvél með þyrlunum vegna þess hve flugið var langt. Gæslan brást skjótt við og sendi Fokker-vélina með þyrlunum. Herskipið setti á fulla ferð til lands og var u.þ.b. 180 sjómílur suður af Vík þegar þyrlurnar komu að því. Vel gekk að ná sjóliðanum um borð og lenti þyrlan með hann við Landspítalann um klukkan sex í gær. Áður en beiðni um aðstoð barst hafði sjóliðinn, sem hlaut innvortis blæðingar eftir þungt högg á brjóstkassann, verið í þriggja klukkusutnda aðgerð á sjúkrastofunni í herskipinu. Við komuna til Reykjavíkur gekkst hann þegar undir aðgerð. Að sögn læknis tókst hún vel í alla staði og er hann nú útskrifaður af gjörgæsludeild og kominn á legudeild. Ekki er ákveðið hvort herskipið komi hingað til hafnar til að sækja sjóliðann eða hann verði sendur út með flugi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×