Innlent

Þjóðarbókhlaðan opin of stutt

Formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að skertur opnunartími Þjóðarbókhlöðunnar komi illa niður á háshólastúdentum, sem þannig fái ekki eðlilegan aðgang að nauðsynlegri lesaðstöðu og lesefni. Um tvö hundruð námsmenn nýta sér venjulega bókasafnið á kvöldin, en ekki verður boðið upp á slíka þjónustu í vetur. Háskólaráð Háskóla Íslands tók nýlega ákvörðun um að hafa háskólabókasafnið í Þjóðarbókhlöðunni aðeins opið til klukkan sjö á kvöldin, en hingað til hefur það verið opið til klukkan tíu. Að sögn Jarþrúðar Ásmundsdóttur, formanns stúdentaráðs háskóla Íslands, kostar um 15 milljónir að hafa bókasafnið opið á kvöldin, en ekki fékkst fé til þess að bjóða upp á þá þjónustu, líkt og áður. Um fjögur hundruð pláss eða lesborð eru á safninu og á kvöldin nýta sér um tvö hundruð námsmenn aðstöðuna. Jarþrúður segir að verið sé að úthýsa stúdentum eftir klukkan sjö á kvöldin og þar sem sá góði kostur sem safnið bjóði upp á sé nemendum nauðsynlegur sé staðan sem komin er upp mjög alvarleg. Jarþrúður segir að mótmæli sem boðað hefur verið til næstkomandi fimmtudagskvöld klukkan sjö, fyrir framan Þjóðarbókhlöðuna séu neyðarúrræði. Stúdentaráð hafi þegar bent á ýmsa möguleika til þess að leysa málið á farsælan hátt, en hún segir ekki vilja til þess að taka á málinu. Til að mynda hafi verið bent á að skrautgrindur sem til stendur að setja utan við Náttúrufræðihúsið kosti 18 milljónir og nær væri að nota þá peninga til þess að bæta kjarnastarfsemi Háskólans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×