Innlent

Steingrímur mótmælir

Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstri grænna segir að hugmyndafræði stjórnarflokkkanna í málefnum Landssímans, gangi út á að skjóta fyrst og spyrja svo. Ef einkavæða eigi Landssímann áður en klárað verður að byggja upp viðunandi dreifikerfi sé verið að snúa hlutunum á haus. Steingrímur J Sigfússon segist telja að eina leiðin til að tryggja jafnan aðgang allan landsmanna að síma og gagnaflutningum sé að falla frá einkavæðingu. Eins og staðan er nú hjá stjórnarflokkunum gerðu þeira réttast í því að fresta að minnsta kosti einkavæðingu og fara í að byggja upp ADSL samband um allt land og GSM kerfið. Hann segir hugmyndir innan stjórnarflokkanna um að standa að útboði eftir sölu símans, þar sem símafyrirtækjum gefist kostur á að bjóða í uppbyggingu dreifikerfisins, fyrir greiðslur úr ríkissjóði, vægast sagt fáránlegar. Hann segir þetta eitthvert sorglegasta dæmið af mörgum slæmum um handabakavinnubrögð og kreddu og sé stjórnarflokkunum báðum og öllum þeim sem að þeim standa til skammar.Steingrímur segir það afleita útgáfu af hugmyndafræði að skjóta fyrst og spyrja svo. Það gangi ekki að rjúka til og selja fyrst og stoppa svo í götin og bæta úr ágöllum í fjarskiptakerfinu eftir það. Á allan hátt væri betra að beita afli símans á meðan hann er enn opinbert þjónustufyrirtæki og ef það hefði áhrif á afkomu þá væri hægt að gera vægari kröfur á meðan um arðgreiðslur í ríkissjóð á meðan, en Síminn sé og hafi þó verið eitt ábatasamasta fyrirtæki ríkisins. Steingrímur segir jafnframt að allir hugsandi menn viti að ekki sé hægt að ljúka málinu með útboði og uppbyggingu á dreifikerfi sem þyki viðunandi í dag, þótt pólitískur vilji væri til þess. Sífellt komi fram ný tækni og nýjar og auknar kröfur um gagnaflutninga. „Þó að menn kæmu nú GSM og tölvusamböndum um allt land í gott horf er ekki þar með sagt að það sé komið í gott horf um aldur og ævi," segir Steingrímur. „Það verður líka að tryggja að menn geti fylgt þróuninni. Það er ekkert síður áhyggjuefni hvernig á að tryggja hvernig landsbyggðin fái aðgang þegar kemur að þriðju kynslóð farsíma." Ljóst sé að einkafyrirtæki komi aldrei til með að mæta þeim kröfum nema þar sem það svarar kostnaði. Hann spyr hvort ausa eigi þá peningum úr ríkissjóði í það um alla ókomna framtíð en láta frá sér símann sem skili þó tveimur milljörðum á ári í arð sem hægt væri að nýta til þessara hluta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×