Innlent

Vélar og þjónusta keyrt í þrot

Fyrirtækið Vélar og þjónusta sem seldi landbúnaðarvélar er gjaldþrota. Allir 39 starfsmenn fyrirtækisins hafa fengið vinnu hjá nýstofnuðu fyrirtæki í eigu sömu fjölskyldu; Vélar og þjónusta ehf. KB banki vildi ráða starfsmennina til sín til að hámarka rekstrarvirði félagsins fyrir uppgjör þess. Stefán Bjarnason, fjármálastjóri og eigandi Vélar og þjónustu, segir starfsmennina hafa hafnað boði bankans. Stefán er ósáttur við vinnubrögð KB banka. Hann segir reksturinn hafa verið að rétta sig við eftir gríðarlegt tap í kjölfar lágs gengis krónunnar. Útlit hafi verið fyrir rúmlega 30 milljóna króna hagnað á árinu. Þeir hefðu óskað eftir fresti til 25. september til að leita endurfjármögnunar á fyrirtækinu og bregðast þannig við innheimtu allra krafna bankans sem hefðu verið 65 til 70 prósent af heildarkröfum fyrirtækisins. Það hafi ekki gengið eftir né 15 daga frestur sem skilyrtur sé í greiðsluáskorunni. "Fimm dögum eftir fund með bankanum var hann búinn að loka öllum tékkareikningum félagsins. Frysta allar birgðir og útistandandi kröfur," segir Stefán. Stefán óttast að KB banki sé að reyna að sölsa undir sig ábátasömum rekstri. Bankinn hafi leitað eftir því að endurráða starfsfólkið og halda rekstrinum áfram: "Frá okkar bæjardyrum séð lítur út fyrir að þeir hafi hreinlega ætlað að bola okkur út úr fyrirtækinu og njóta hagnaðarins sem loksins náðist eftir margra ára baráttu." Helgi Sigurðsson, yfirlögfræðingur KB banka, segist aðeins óska eftir gjaldþrotaskiptum fyrirtækja telji hann aðrar leiðir ófærar: "Þeir gátu ekki sýnt fram á að félagið gæti staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar." Helgi segir það í höndum skiptastjóra hvernig eignir félagsins verði hámarkaðar til að greiða kröfur þess upp. "Þegar félag verður gjaldþrota skiptir miklu máli að reyna að tryggja rekstrarvirði þess. Það er gert til hagsbóta fyrir þá sem eiga kröfu í fyrirtækinu en ekki til þess að einstakir hluthafar stofni nýjar kennitölur og hirði út eignir þess. Það er hin almenna regla gjaldþrotalaga."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×