Innlent

Valgerður segir gjald í lagi

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra telur að viðskiptabönkunum sé heimilt að taka gjald fyrir uppgreiðslu nýju fasteignalánanna. Gjaldið megi hins vegar ekki vera hærra en sem nemur kostnaði bankanna. ASÍ hyggst senda kæru til Samkeppnisstofnunar vegna málsins á næstu dögum. Alþýðusambandið hefur lýst því yfir að gjald sem viðskiptabankar krefjast fyrir uppgreiðslu fasteignalána áður en lánstíma lýkur orki tvímælis og sé jafnvel lögbrot. Fasteignalán bankanna falli undir lög um neytendalán frá 1994 og túlkar ASÍ sextándu grein þeirra laga á þann veg að ekki sé hægt að taka aukagjald fyrir að greiða upp lán snemma. Að auki gerir Alþýðusambandið athugasemdir við þau ströngu skilyrði um langtímaviðskipti sem bankarnir setja fyrir lánveitingu. Viðbrögð bankanna um helgina voru að draga í efa að fasteignalánin teldust neytendalán í skilningi laganna. Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, segir engan vafa leika á því í sínum hug að fasteignalánin falli undir lög um neytendalán. Hún segir að þegar neytandinn sé festur við viðkomandi lánastofnun, megi velta því fyrir sér hvort það sé ekki orðið samkeppnishamlandi, en eðlilegt sé að eitthvert gjald sé tekið, en að það sé sanngjarnt. Valgerður segir bankana verða að geta fært rök fyrir því að gjaldið svari til kostnaðar, en það sé annarra að meta hvort prósentin tvö sem bankarnir krefjast falli undir þá skilgreiningu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×