Innlent

Til stendur að fjölga sérfræðingum

"Það er vilji til þess, að halda áfram að vinna í samræmi við þær hugmyndir sem starfsstjórn um málefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins skilaði af sér á síðasta ári," sagði Þór Þórarinsson skrifstofustjóri Félagsmálaráðuneytisins um fyrirhugaða fjölgun sérfræðinga við stöðina. Hann bætti við að raunaukning hefði orðið á fjármagni til stöðvarinnar undanfarin ár, þannig að menn væru tiltölulega bjartsýnir á framhaldið. Umrædd starfsstjórn, sem í áttu sæti fulltrúar félagsmálaráðuneytis, Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og hagsmunasamtaka, komst meðal annars að þeirri niðurstöðu, að fjölga þyrfti sérfræðingum stöðvarinnar um átta stöðugildi á fjórum árum. Stöðugildum hefur nú verið fjölgað um eitt og hálft. Nýverið var tekið í notkun 200 fermetra viðbótarhúsnæði Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar. Þar verður fagsvið þroskahamlana starfrækt, svokölluð snemmtæk íhlutun, sem felst í vinnu með ung, fötluð börn og foreldra þeirra. Það rými sem losnaði verður nýtt til bættrar aðstöðu fyrir einhverf börn. Þá rýmkast einnig um iðjuþjálfun, sem búið hefur við mjög þröngan kost.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×