Innlent

Undrast leirfokstölur Landsvirkjun

"Heildarrúmmál á jarðvegi sem lendir undir vatni í Hálslóni þegar það er í hámarki, en er ofan vatnshæðar að vori þegar lægst stendur í lóninu, getur verið um 30 milljónir rúmmetra, bara austan megin við lónið," sagði Þóra Ellen Þórhallsdóttir, einn af fjórum sérfræðingum sem Skipulagsstofnun fékk til að fara yfir matsskýrslur um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Þóra kvaðst ekki geta áttað sig á staðhæfingu Péturs Ingólfssonar verkfræðings hjá Landsvirkjun um að mest 100 tonn af leir gætu fokið af 40 ferkílómetra svæði í miðlunarlóni Kárahnjúkavirkjunar við verstu aðstæður. "Mér finnst þetta vera mjög lág tala og ég vil gjarnan sjá hvernig hún er reiknuð út,"sagði Þóra. Ljóst er af viðtölum Fréttablaðsins að þeir sem standa að rannsóknum á hvernig best muni vera að binda leirmagnið, sem getur fokið úr lóninu þegar lágt stendur í því og hvessir í veðri, hafa mismunandi hugmyndir í þeim efnum. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri nefnir áveitukerfi, svo sem tíðkast í landbúnaðarhéruðum erlendis. Pétur Ingólfsson verkfræðingur segir í athugun dreifingu leirbindiefnis úr flugvél á svæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×