Innlent

Villtust við Heklu

Flugbjörgunarsveitin á Hellu var kölluð út á öðrum tímanum í nótt eftir að tveir menn um tvítugt sem höfðu gengið á Heklu fyrr um daginn óskuðu aðstoðar við að komast til baka að bíl sínum. Mennirnir höfðu lagt á Heklu um klukkan tvö í gærdag og áætluðu að vera komnir til baka áður en myrkur skylli á. Voru þeir þar af leiðandi ekki með nein vasaljós meðferðis. Þeir lögðu hins vegar bíl sínum frekar langt frá rótum Heklu sem varð til þess að ferð þeirra varð lengri en upphaflega hafði verið áætlað og var komið myrkur áður en þeir komust í bíl sinn. Þá ákváðu mennirnir fyrst að reyna bíða af sér myrkrið og fara aftur að stað í birtingu en þegar leið á nóttina kólnaði þeim talsvert. Höfðu þeir þá samband við Neyðarlínuna 112 og óskuðu aðstoðar sem var skynsamlegt í stöðunni að því er segir í fréttatilkynningu Landsbjargar. Flugbjörgunarsveitin á Hellu sendi bíla og mannskap við svokallaða Suður-Bjallar við Næfurholtshraun en þaðan er vinsæl gönguleið á Heklu. Svæðið getur verið villugjarnt fyrir ókunnuga og hafa þurfa björgunarsveitir reglulega þurft að aðstoða fólk þar til að komast í bíla sína. Eftir að björgunarsveitarmenn komu á staðinn og kveiktu á öflugum kösturum á bílum sínum gátu mennirnir séð ljósin af þeim og gengið með því í rétta átt og komust þannig til baka. Mönnunum varð ekki meint af næturævintýri sínu. Suðaustanátt var í nótt við Heklu og strekkingsvindur en þurrt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×