Innlent

Aukin tortryggni og ótti

Íslenskur heimspekingur segir að einhver helstu áhrif hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin fyrir þremur árum séu aukin tortryggni og ótti í heiminum. Árásanna var víða minnst í dag. Ættingjar og vinir þeirra sem fórust í tvíburaturnunum í New York söfnuðust saman í dag þar sem turnarnir stóðu og minntust hinna látnu. Foreldrar og ömmur og afar fórnarlambanna lásu upp nöfn horfinna ástvina. Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York, sagði í ávarpi sínu að kona sem missti mann sinn væri ekkja. Það væri hins vegar ekki til neitt orð yfir foreldri sem missir barn sitt því engin orð fái lýst þeim sársauka. Alls fórust 2973 í árásunum og nú þremur árum síðar eiga réttarlæknar enn eftir að rannsaka um tuttugu þúsund líkamshluta sem fundust í rústum turnanna í New York og bera kennsl á um fjörutíu prósent þeirra sem fórust. Hér á Íslandi var þessara atburða einnig minnst í dag. Grafarvogsbúar sneru minningunni um hamfarirnar upp í hugsun um vináttu og bræðralag og teiknuðu myndir og skrifuðu texta um vináttuna á mörg hundruð metra langa pappírsrúllu. Salvör Nordal, heimspekingur og forstöðumaður Siðfræðistofnunar, segir að áhrifa atburðanna fyrir þremur árum sjáist einna helst í því að yfirvöld í Bandaíkjunum og Evrópu hafi dregið úr mannréttindum fólks og alið á ótta og tortryggni. Hún segir það auðvelt í ljósi atburða eins og sem um ræðir sem fólk hafi horft á í beinni útsendingu í sjónvarpi. Salvör segir það hins vegar ekki það samfélag sem við viljum byggja og standa fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×