Innlent

Mun sakna Stjórnarráðsins

Davíð Oddsson forsætisráðherra stýrði sínum næstsíðasta ríkisstjórnarfundi í morgun, á þessu kjörtímabili að minnsta kosti. Hann segist munu sakna Stjórnarráðsins og Kvosarinnar.  „Það fer að styttast hér,“ sagði Davíð þegar hann gekk upp tröppur Stjórnarráðsins fyrir fundinn í morgun. Á miðvikudag flytur hann sig um set yfir í utanríkisráðuneytið, eftir þrettán ára setu í embætti forsætisráðherra, þegar hann og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafa stólaskipti. Davíð segir bæði eftirsjá og tilhlökkun bærast með sér. Það sé yndislegt að vinna í Stjórnarráðinu því andinn þar sé ómótstæðilegur sem og í miðbænum öllum. Annars hafi hann unnið í miðborginni nánast alla sína hundstíð, allt frá því hann var sendill í Ingólfsapóteki í Fichersundi. Davíð segist byrja feril sinn sem utanríkisráðherra varlega, heilsunnar vegna. Læknar segi hann ekki munu ná fullum kröftum fyrr en upp úr áramótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×