Innlent

Síminn seldur án skilyrða

Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina stefna að sölu Landssímans án skilyrða. Hins vegar bárust skýr skilaboð í gær frá þungaviktarmönnum innan Framsóknarflokksins um að höfuðatriði væri að dreifikerfi um land allt væri tryggt áður en fyrirtækið yrði selt. Á fundi framsóknarmanna í Borgarnesi í gær kom skýrt fram í máli Hjálmars Árnasonar, formanns þingflokksins, að sett yrðu þau skilyrði fyrir sölu Landssímans að uppbyggingu dreifikerfis yrði lokið þannig að landsmenn allir hafi jafnan aðgang að nútíma fjarskiptum. Hann sagði þetta höfuðatriði og meginforsendu fyrir samþykkt þingflokks framsóknarmanna. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir engin slík skilyrði hafa verið sett innan ríkisstjórarinnar og málið var ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi í dag. Þegar stólaskiptin verði í Stjórnarráðinu muni formennska í einkavæðinganefndinni fylgja Framsóknarflokknum því það hafi verið á könnu forsætisráðherra. Sú endurskipulagning getur valdið því að dráttur verði á sölu Landssímans að sögn Davíðs en stefnan er samt sem áður óbreytt: Landssíminn verður seldur. Spurður hvort það rýri ekki verðgildi fyrirtækis sem eigi að fara í einkaeigu að það þurfi að uppfylla skilyrði sem megi líkja við byggðastefnu, segir forsætisráðherra að honum hafi ekki verið sett nein slík skilyrði og að þau hafi ekkert verið rædd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×