Innlent

Íslenskar myndir í Toronto

Þrjár íslenskar myndir verða sýndar á kvikmyndahátíðinni í Toronto sem fer fram 9.-18. september. Hátíðin er ein sú stærsta í heimi og mjög mikilvæg fyrir sölu á myndum til Bandaríkjanna að því er segir í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Kvikmyndin Niceland í leikstjórn Friðrik Þórs Friðrikssonar er í „Contemporary World Cinema“ en hún er ein af aðaldagskrám hátíðarinnar þar sem sýndar eru myndir frá öllum heimshornum sem þykja endurspegla það besta sem gerist í kvikmyndagerð í dag. Heimildamyndin Mjóddin (Small Mall) í leikstjórn Róberts Douglas er í „Reel to Reel“ en þetta er í fyrsta skipti sem íslensk heimildamynd kemst í þessa virtu dagskrá. Margar heimildamyndir sem hafa verið í „Reel to Reel“ hafa síðar verið tilnefndar til Óskarsverðlauna. Stuttmyndin Skagafjörður í leikstjórn Peters Huttons er í „Wavelenghts“ en það þykir mjög áhugaverð dagskrá þar sem sýndar eru „avant-garde“ myndir þar sem mörk kvikmyndagerðarinnar eru könnuð á nýjan og spennandi hátt. Þess má geta að mynd Huttons, sem er þögul 16mm kvikmynd, verður opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar Nordisk Panorama sem haldin verður hér á landi í september. Leikstjórar og framleiðendur íslensku myndanna eru gestir hátíðarinnar en Kvikmyndamiðstöð Íslands, í samvinnu við Iceland Naturally í New York, mun halda veglegt boð í tilefni af sýningum íslensku myndanna í Toronto þann 14. september þar sem lykilfólki í kvikmyndageiranum verður boðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×