Innlent

Reglur um smitgát brotnar

Embætti yfirdýralæknis hefur borist til eyrna að brotalamir kunni að vera í flutningum sauðfjár milli landshluta í sláturhús, segir Sigurður Sigurðarson, sérfræðingur embættisins í sauðfjársjúkdómum. Hann segir að vegið sé að vörnum við riðu, garnaveiki og ýmsum smitsjúkdómum sem embættið er að reyna að útrýma þegar óvarlega er farið í flutningunum. "Féð er flutt langar leiðir og milli landshluta. Farið er bæ af bæ, jafnvel úr einu hólfi í annað með mismunandi smitstöðum og stórir miklir bílar sem bakka að bæjardyrum þarn sem leka af þeim óhreinindin," segir Sigurður og skorar á sláturleyfishafa og bílstjóra að sjá til þess að farið sé að reglum og bílar sótthreinsaðir þegar farið er á milli hólfa. "Ég skora á dýralækna að fylgjast með þessu og bændur að láta vita ef ekki er staðið að þrifnaði bíla með viðunandi hætti." Sigurður telur hættuna á að slegið sé slöku við í þrifnaði bíla aukast eftir því sem líður á sláturtíðina því þá sé verið að sækja færri kindur og því freistingin meiri að fara víðar og nýta ferðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×