Innlent

Sala eykst við heimsókn Clintons

Ákvörðun Bills Clintons um að kaupa sér pylsu á Bæjarins bestu í gær er sennilega besta auglýsing sem sá staður hefur fengið enda nýtir hann sér athyglina með heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag ásamt SS, sem framleiddi sinnepið. En það hljóp á snærið hjá fleirum. Við Vesturgötu hafa tíu listakonur rekið lítt þekkta listmunaverslun í ellefu ár. Óvænt heimsókn fyrrverandi Bandaríkjaforseta hefur skyndilega leitt til þess að nú vita flestir að til er búð í Reykjavík með þessu skrýtna nafni, Kirsuberjatréð. Clinton staldraði inni í um það bil tíu mínútur og keypti fimm skálar eftir Valdísi Harrysdóttur, gular og rauðar, en þær eru gerðar úr hreðkum og kúrbít. Athyglin varð til þess að búðin fylltist strax í morgun. Hillary Clinton fékk reyndar gjöf úr sömu búð, handtösku úr hlýraroði eftir Arndísi Jóhannsdóttur, en það var starfsmaður í forsætisráðuneyti sem keypti töskuna. Skálarnar sem Clinton keypti kosta á bilinu 1.000 til 3.500 krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×