Menning

Fitusog leysir ekki vandann

Það er ekki sama hvernig þú missir aukakílóin. Niðurstöður rannsókna sem birtust í virtu bandarísku læknatímariti benda til þess að það sé ekki nóg að fara í fitusog og minnka þannig magn blóðfitu og fækka kílóunum. Fylgst var með fimmtán of feitum konum sem gengust undir fitusog til að minnka líkamsfitu sína og léttast. Læknar fjarlægðu að meðaltali 11 kílógrömm af fitu af hverri konu og mældu því næst áhættuþætti í tengslum við skurðaðgerðina. Brottnám fitunnar hafði engin áhrif á insúlínnæmi, háan blóðþrýsting eða kólesteról. Það er því augljóst að leiðin til að minnka þessa áhættuþætti er eftir sem áður sú að hreyfa sig reglulega og taka mataræðið í gegn. Ein helsta ástæðan er sú að þegar hreyfing og hollt mataræði fara saman gengur á fituforðann í fitufrumunum, sem þá minnka smátt og smátt. Þegar fitan er sogin úr frumunum með utanaðkomandi afli minnka þær ekki heldur halda sínu fyrra ummáli og halda áfram að valda blóðþrýstingi og hafa áhrif á efnaskiptin. Að auki býr líkaminn yfir djúpt liggjandi fituforða sem hann gengur á sjálfur þegar fitu er þörf en ekki er hægt að ná til með fitusogi. Fitusog er því fyrst og síðast fegrunaraðgerð en gerir lítið fyrir heilsuna nema bættir lifnaðarhættir fylgi í kjölfarið. Eina lausnin á offituvandamálinu kemur að innan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×