Innlent

Börn læri á umferðina

Það er ekki nóg að kaupa nýja skólatösku, fín pennaveski, bækur og skólaföt, þegar stóri dagurinn rennur upp og börnin hefja skólagöngu. Það er ekki síður mikilvægt að brýna fyrir þeim að fara varlega í umferðinni. Þúsundir sex ára barna hefja skólagöngu í vikunni og flest þeirra bíða spennt eftir fyrsta skóladegi. Mörg börn þurfa að fara yfir götu á leið í skólann og það er því eitt og annað mikilvægt sem foreldrar þurfa að kenna börnum og brýna fyrir þeim í tengslum við umferðina. Kjartan Benediktsson, umferðarfulltrúi Landsbjargar, segir að fyrst og fremst þurfi að kenna börnunum að þekkja stystu og öruggustu leiðina í skólann. Hvernig þau eigi að haga sér í kringum gangbrautir og nota þau verkfæri sem til eru, eins og umferðarmerki og ljós. Foreldrar þurfi að tryggja að börnin þekki þessa leið og hann hvetur þá einnig til að ganga með börnunum fyrstu dagana. Kjartan segir ekki síður mikilvægt að benda ökumönnum á að fara varlega þegar ekið er nálægt skólum. Það vakti athygli fréttamanns í dag þegar ekið var eftir Langarima í Grafarvogi, sem er fjölfarin gata við Rimaskóla, að ökumenn eru varaðir við að börn séu á ferð, en engin merkt gangbraut er við götuna. Kjartan segir að í þessum efnum sé pottur brotinn víða í Reykjavík. Hann segir sums staðar engar gangbrautir til staðar. Þá sé allt of víða þrengingar og hraðahindranir sem ætlast sé til að séu notuð líkt og gangbrautir en séu ekki merktar sem slíkar. Hann vill hins vegar sjá merki við þessa staði. Börnum sé kennt strax í upphafi umferðarfræðslu að þekkja þessi merki en síðan séu þau ekki notuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×