Innlent

3.821 í Reykjavíkurmaraþoni

3.821 maður tók þátt í Reykjavíkurmaraþoni, sem fram fór í blíðskaparveðri í dag, fleiri en nokkru sinni fyrr. Reykjavíkurmaraþon markar upphaf Menningarnætur í Reykjavík. Hlauparar í heilu maraþoni lögðu reyndar af stað klukkan tíu, en rétt fyrir ellefu gátu aðrir hitað upp í takt. Það var svo klukkan ellefu að Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar setti Menningarnótt og ræsti hlaupara í 3ja kílómetra skemmtiskokki. Næstir fóru hlauparar í 10 kílómetrum og hálfu maraþoni, sem er 21 kílómetri, og síðastir hlauparar í 7 kílómetrum. Stemmningin var stórkostleg, og það var barið í bumbur, hlaupurum til heiðurs. Hlauparar streymdu í mark í öllum vegalengdum, en þátttaka í skemmtiskokki fór fram úr björtustu vonum, þannig að verðlaunapeningar kláruðust. Allir munu þó fá sinn skjöld að lokum. Ekki er tekinn tími í skemmtiskokki, en fyrstur til að koma í mark á mældum tíma var Gauti Jóhannesson í 10 kílómetra hlaupi. Hann sagði þetta vera besta árangur sinn í Reykjavíkurmaraþoni til þessa. Svíinn Maus Höine kom fyrstur í mark í maraþonhlaupi karla og hljóp hann 42 kílómetrana á 2 klst. 26 mínútum og 34 sekúndum. Þetta var í fyrsta sinn sem Maus tók þátt í Reykjavíkurmaraþoni og fyrsti sigur hans. Hann var þreyttur eftir hlaupið en mjög ánægður með veðrið og áhorfendur. Bandaríska konan Kate Davis sigraði í maraþonhlaupi kvenna á tímanum 2 klst. 59 mínútur og 51 sekúnda. Fyrstur Íslendinga í mark var Steinn Jóhannsson á 2 klst og 57 mínútum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×