Innlent

Kergja innan Framsóknar

Sú ákvörðun formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, að víkja Siv Friðleifsdóttur úr ráðherraembætti þann 15. september í trássi við óskir margra félagsmanna hefur valdið úlfúð sem ekki sér fyrir endann á. Framsóknarkonur funda í Iðnó í hádeginu í dag og ræða næstu skref. "Það er mikill hiti í okkur. Við ætlum að athuga hvort við getum eflt okkur á annan hátt og skoða stöðuna," sagði Bryndís Bjarnarson, jafnréttisfulltrúi flokksins. Fylgi Framsóknar hefur ekki verið mikið í skoðanakönnunum og óttast margir að ráðherramálið þýði frekara fylgishrun. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður flokksins, telur ljóst að meðan leynd liggur yfir hvers vegna Siv Friðleifsdóttur var fórnað í stað einhvers annars verði deilur um málið innan flokksins. "Það er alveg rétt sem Siv sagði að loknum fundinum að með þessu vali væri farið gegn mörgum stofnunum og venjum innan Framsóknarflokksins. Greinilegt er að þingflokkurinn lítur ekki svo á að efstu menn í hverju kjördæmi séu fyrstu ráðherrakostirnir. Tvö kjördæmi hafa einstakling úr öðru sæti á ráðherrastóli og sé þetta ný stefna formanns þá þarf að ræða það innan flokksins." Kristinn gaf lítið fyrir þá ákvörðun Halldórs að frekari hrókeringar yrðu á ráðherraliði Framsóknar fyrir næstu kosningar. "Þetta finnst mér slæm ákvörðun. Þetta er vont fyrir þá ráðherra sem nú sitja, það er vont fyrir þingmennina sem vita þá ekki fyrir víst hvernig haga skal starfi sínu og þetta skapar óöryggi." Kolbrún Ólafsdóttir, framkvæmdarstjórnarmaður í Landssambandi Framsóknarkvenna, segir að síðan ákvörðunin um brotthvarf Sivjar var tekin hafi töluverður fjöldi sagt sig úr flokknum. "Þetta er grafalvarleg staða og á skjön við það sem konum í flokknum hefur verið talin trú um að flokkurinn standi fyrir." Hjá flokksskrifstofu Framsóknar höfðu engar úrsagnir borist seint í gærdag að sögn Einars Gunnars Einarssonar. Magnús Stefánsson, þingmaður, undrast fjölmiðlafár vegna málsins. "Legið hefur fyrir í langan tíma að Framsókn missti eitt ráðuneyti," sagði hann og taldi eðlilegt að sá ráðherra sem missti ráðuneyti sitt missti stöðuna. "Ef landbúnaðar- eða félagsmálaráðuneytið hefðu verið í skiptum í staðinn fyrir umhverfisráðuneytið er líklegt að þeir ráðherrar hefði farið í stað Sivjar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×