Innlent

Hraðbraut í gegnum Grafarvog

Horft er til þess að tengja Hallsveg í Grafarvogi við Vesturlandsveg og tvíbreikka þegar nýtt hverfi við Úlfarsfell rís. Hallsvegur verður lengdur frá Fjallkonuvegi niður á Víkurveg á næsta ári, segir Árni Þór Sigurðsson formaður samgöngunefndar Reykjavíkurborgar. Verkið verði boðið út um áramót. Guðlaugur Þór Þórðarson fulltrúi sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir ekki æskilegt að hraðbraut liggi beint í gegnum Grafarvog: "Forsendurnar sem fólk hafði þegar það valdi sér búsetu í Grafarvoginum verða allt aðrar en það gerði ráð fyrir." Guðlaugur segir tugi þúsunda bíla muni fara um Grafarvoginn á sólarhring verði vegurinn tengdur Vesturlandsvegi, Grafarvogur klofni í tvennt og íbúðarverð lækki. Árni segir Reykjavíkurlistann hafa vitað að andstaða væri við vegaframkvæmdina á vissum stöðum í hverfinu og yrði það skoðað betur í samræmi við íbúa, embættismenn og vegagerðina. "Það er fráleitt að að umferð verði tugir þúsunda bíla. Okkar áætlanir sýna 16 til 20 þúsund bíla sem er þriðjungurinn af því sem Guðlaugur er að tala um. Við höfum litið svo á að það sé mun greiðari leið fyrir komandi íbúa Úlfarsfells að fara Vesturlandsveginn en Hallsveg því hann verður ekki eins beinn og breiður og Vesturlandsvegur," segir Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×