Innlent

Jón Steinar hefur þegar sótt um

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur þegar skilað inn umsókn um stöðu Hæstaréttadómara, þótt umsóknarfrestur renni ekki út fyrr en eftir viku. Ragnar H. Hall, sem Hæstiréttur taldi, ásamt Eiríki Tómassyni, heppilegastan til að fá stöðu dómara í fyrra, ætlar ekki að sækja um stöðuna, enda virði ráðherra ekki stjórnsýslureglur um stöðuveitingar. Pétur Hafstein lætur af störfum Hæstaréttardómara í september og kemur í hlut Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, að skipa nýjan dómara í hans stað. Enda þótt frestur til að skila inn umsóknum renni ekki út fyrr en eftir viku hefur að minnsta kosti ein umsókn borist til dómsmálaráðuneytinu, það er frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Hann segist þó ekki vera að letja aðra til að sækja um stöðuna. Þá finnist honum ótímabært að vera að fjalla um þetta mál þar sem aðrir ættu eftir að gefa sig fram. Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við skipan hæstaréttardómara í fyrra, en þá hafði Hæstiréttur veitt umsögn og talið Eirík Tómasson og Ragnar H Hall heppilegasta til að hljóta stöðuna. Eiríkur hefur ekki ákveðið hvort hann sækir um stöðuna nú, en það hefur Ragnar Hall gert. Hann segir að hann hafi fyrir alllöngu síðan ákveðið að halda áfram að reka lögfræðistofu sína. Síðan bæti það ekki úr skák að ekki sé hægt að treysta því að sá sem ákveði hver hljóti stöðuna fari eftir þeim reglum sem um það gildi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×