Innlent

Bæjarstjóri neitar sjónhverfingum

Bæjarstjóri Seltjarnarness frábiður sér ásakanir um sjónhverfingar við kynningu á nýju skipulagi á Seltjarnarnesi. Andstæðingar íbúðablokka segja of lítið gert úr þeim á kynningarmyndum. Á mánudaginn var gögnum um nýtt skipulag á Seltjarnarnesi dreift inn á öll heimili þar, ásamt myndum af blokkum sem á að reisa á Suðurströnd. Andstæðingar blokkanna saka bæjarstjórnina um sjónhverfingar við kynninguna; myndirnar lýsi ekki byggingunum eins og þær verða. Ein mynd er til dæmis tekin með gleiðlinsu þar sem allt dýptarskyn hverfur og blokkirnar virðast litlar og langt í burtu. Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segist ekki fella sig við ásakanir um sjónhverfingar. Það sé kannski eitthvert smekksatriði þar á ferð en hann segist ekki með nokkru móti fá séð að það eigi að skipta máli varðandi það hvort Seltirningar geti glöggvað sig á hugmyndum um fyrirhugaða byggð.       Jónmundur bendir á að skipulagið er enn í kynningu og því hefur fólk enn tíma til að senda inn athugasemdir. Endanleg ákvörðun verður svo tekin upp úr miðjum september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×