Innlent

Söfnun lokið á Patreksfirði

"Við dæmum þetta sem svo að þetta sé komið, það vantar einhverja örfáa þúsundkalla upp á," segir Geir Gestsson sem efndi til samskota á Patreksfirði til að fjármagna sendi til að ná útsendingum Skjás eins. Vesturbyggð lögðu 200 þúsund krónur til í söfnunina og var þá nærri því búið að safna þeim 900 þúsund krónum sem stefnt var að. Skjár einn hefur boðist til að setja upp sendi í nokkrum bæjarfélögum, fjármagni þau helminginn af kostnaðinum við að koma upp sendi. Að sögn Geirs hafa forsvarsmenn Skjás eins sagt að sendirinn muni vera kominn upp eftir sex til átta vikur. Á Bolungarvík hefur einnig verið efnt til samskota og segir forkólfurinn Helgi Jónsson að það sé allt að ganga upp. Söfnuninni lýkur í dag og hann er bjartsýnn á að ná takmarkinu án þess að þurfa að leita til bæjaryfirvalda. Þá hafa íbúar á Fáskrúðsfirði einnig efnt til söfnunar samkvæmt því sem kemur fram á bæjarvefnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×