Innlent

Klink og Bank áfram í Hampiðjunni

Allt útlit er fyrir að listamennirnir í Klink og Bank verði með aðstöðu í gamla Hampiðjuhúsinu í að minnsta kosti eitt ár í viðbót. Reynslan af samstarfinu í þessum suðupotti íslenskrar listar hefur verið afar góð. Listamennirnir segja að það eina sem vanti upp á sé að fá fyrir salti í grautinn af og til. Gamla Hampiðjuhúsið á sér að því er virðist mörg líf, en fyrir tilstilli Landsbankans hafa um 140 listamenn þar einhverja aðstöðu í dag. Þetta er fjölbreyttur hópur af skapandi fólki, sjónlistarfólki og tónlistarmönnum sem unnið hefur að list sinni í húsinu síðustu sjö mánuðina. Samningurinn við Landsbankann átti að renna út um mánaðamótin en flest bendir nú til að ævintýrið fái að halda áfram enn um sinn; Nína Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Klink og Bank, segir að þau hafi sýnt og sannað að þau geti haldið áfram að gera spennandi hluti. Þau finni fyrir stuðningi hjá Landsbankanum sem er stuðningsaðili þeirra svo og almenningi og listamönnum. Nína segir Klink og Bank samstarfið aldrei hafa verið hugsað sem stofnun eða hús heldur frekar hugmynd en það sé gott að þurfa ekki að flytja strax. Hins vegar hafi allt starf verið unnið á orkunni einni saman og brátt verði að leita einhverra leiða til að borga laun fyrir starfið. Fyrir utan það að hætta að lifa á loftinu gera listamennirnir sér vonir um að hægt verði að auka samstarf við skemmtilegt fólk annars staðar í heiminum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×