Innlent

Ákærður fyrir þrettán brot

Tuttugu og fjögurra ára maður sem meðal annars er ákærður fyrir rán í verslun á Laugarvatni sagðist við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær ekki hafa beitt ofbeldi eða hótunum þegar hann framdi ránið. Maðurinn er einnig ákærður fyrir fjölda brota svo sem bílþjófnaði, fjársvik, innbrot, skjalafals, umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Ríkissaksóknari ákærir manninn fyrir að hafa ógnað afgreiðslustúlku sem var ófrísk með rörtöng í versluninni H-seli á Laugarvatni sautjánda maí síðastliðinn. Hann er sagður hafa krafið stúlkuna um peninga, farið inn fyrir afgreiðsluborðið og hrifsað að minnsta kosti 33 þúsund krónur úr peningakassanum. Með rörtönginni mölvaði maðurinn gler í afgreiðsluborðinu. Eigandi verslunarinnar og faðir afgreiðslustúlkunnar sá manninn í biluðum símaklefa og elti hann á bíl til Þingvalla þar sem honum tókst að yfirbuga ræningjann með aðstoð vegfaranda. Maðurinn játaði að hafa sama dag stolið bíl í Reykjavík sem hann ók undir áhrifum lyfja til Þorlákshafnar, Þingvalla og Laugarvatns. Maðurinn er einnig ákærður af Lögreglustjóranum í Reykjavík fyrir ellefu brot sem hann játaði í héraðsdómi í gær. Þar af eru fjögur þjófnaðarbrot. Hann braust inn í Tónlistarskólann í Reykjavík og tvær geymslur í Árbæ, þaðan stal hann verðmætum fyrir um 70 þúsund krónur. Þá fór hann í heimildarleysi inn í íbúðarhús í Breiðholti og stal ýmsum raftækjum, auk þess stal hann peningaveski í félagsmiðstöð. Maðurinn játaði einnig fjársvik þar sem hann hafði tekið kreditkort ófrjálsri hendi og notað það til að greiða fyrir leigubíla og aðra þjónustu. Hann játaði líka að hafa framvísað í banka falsaðri ávísun í janúar. Í apríl og maí stal hann tveimur bílum sem hann ók innan Reykjavíkur. Skömmu áður hafði hann verið tekinn með tæpt gramm af amfetamíni í fórum sínum. Þá braut hann í tvígang gegn umferðarlögum þegar hann ók undir áhrifum lyfja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×