Innlent

Uppfærslan boðin innanlands

Microsoft á Íslandi ætlar að bjóða SP2, nýjustu hugbúnaðarviðbótina við Windows XP stýrikerfið, sem innanlandsniðurhal þannig að tölvunotendur þurfi ekki að greiða fyrir niðurhal erlendis frá. Uppfærslan sem nefnist SP2 er í heild yfir 200 megabæt að stærð þó ekki þurfi allir að hlaða henni niður í heild sinni. Gísli R. Ólafsson, sérfræðingur hjá Microsoft á Íslandi, segir verið að leggja lokahönd á tæknileg atriði þannig að sjálfvirkar uppfærslur stýrikerfisins (Windows update) sæki uppfærsluna á miðlara hér á landi. "Þetta ætti að vera orðið klárt á föstudaginn, í síðasta lagi á mánudag," sagði hann. Sumir tölvunotendur sem kveikt hafa á sjálfvirkum stýrikerfisuppfærslum kunna þó þegar að vera orðnir varir við að tölvur séu farnar að kalla á niðurhalið, en útgáfa SP2 fyrir Windows XP Home útgáfuna var komið á Windows Update í gær. Útgáfa fyrir XP Pro kemur ekki fyrr en á miðvikudag í næstu viku. SP2 er stærsta hugbúnaðarviðbót Microsoft síðan Windows XP stýrikerfið var gefið út, en bótinni er ætlað að plástra öryggisveilur og bæta Windows XP stýrikerfið á margvíslegan annan máta. Til dæmis fylgir viðbótinni eldveggur sem sambyggður stýrikerfinu auk smábreytinga á Internet Explorer sem auka eiga öryggi og þægindi notenda á netinu. Til dæmis verður eftir að uppfærslan er sett upp hægt að slökkva á "pop-up" auglýsingagluggum sem spretta upp af sumum vefsíðum. Þá bætist við innbyggð öryggismiðstöð, eða <I>Windows Security Center<P>, sem vakir yfir vírusvörnum, eldvegg og öðrum öryggisstillingum tölvunnar. Þýðingum á SP2 uppfærslunni er að ljúka hjá Microsoft og verður væntanlega komin sem uppfærsla í Windows update eftir tæpar 3 vikur, að sögn Gísla R. Ólafssonar. Notendum íslenskrar útgáfu stýrikerfisins er engu að síður sagt óhætt að setja SP2 strax upp, án þess að það trufli virkni þess. Fregnir hafa borist af því að sjálfgefnar öryggisstillingar sem fylgja SP2 uppfærslunni hafi truflað skráaskiptiforrit (svokölluð P-to-P forrit) og einhverjar samtengingar tölva, til dæmis tölvuleiki sem leiknir eru á netinu, en leiðbeiningar um lausnir á slíkum vandkvæðum mun vera að finna á vef Microsoft.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×