Innlent

Magnús hlýtur lýðheilsuverðlaunin

Magnús Scheving hlýtur Norrænu lýðheilsuverðlaunin í ár en þau eru veitt einstaklingi, samtökum eða stofnun sem hafa lagt fram mikilvægan skerf til að bæta lýðheilsu á Norðurlöndum. Í tilkynningu segir að Magnús hafi í áratug unnið að því að hvetja börn til heilbrigðari lífshátta í verkinu um Latabæ. Á stuttum tíma varð hann fyrirmynd barna um hreyfingu og heilbrigði og ákvað að nota skemmtun sem aðferð til að fá börn til að hreyfa sig, borða hollari mat og keppa að heilbrigðum lífsháttum. Í mati dómnefndar segir að offita meðal barna sé vaxandi lýðheilsuvandamál á Norðurlöndum. Í verkinu um Latabæ eru börn hvött til heilbrigðari lífshátta með samblandi af leik og fræðslu og þar er áhersla lögð á hreyfingargleði og góðar matarvenjur. Stjórnandi og hugmyndasmiður verksins um Latabæ, Magnús Scheving, vinnur á óvenjulegan og nýstárlegan hátt að bættri heilsu barna. NHV, Norræni háskólinn fyrir lýðheilsufræði, hefur samkvæmt fyrirmælum Norrænu ráðherranefndarinnar veitt Norrænu lýðheilsuverðlaunin frá árinu 1989. Frá og með árinu 2001 hafa Norræna ráðherranefndin og NHV tekið höndum saman um að fjármagna verðlaunaupphæðina sem er 500 þúsund íslenskar krónur. Á myndinni er Magnús með einum af íbúum Latabæs, Glanna glæp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×