Innlent

Mennirnir aldrei komið við sögu

Lögreglan í Reykjavík lagði hald á mikið af vopnum, skotfærum og bareflum, við húsleit í íbúð í austurhluta Reykjavíkur í nótt. Þrír menn á þrítugsaldri eru í haldi lögreglu vegna málsins, en athygli vekur að enginn þeirra hefur áður komið við sögu lögreglu. Nokkru eftir miðnætti í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af tveimur mönnum við verslun í Lágmúla, en í bifreið þeirra fannst þýfi og fíkniefni. Í kjölfarið var gerð rannsókn á heimilum þeirra. Axir, hnífar, sveðjur og fjöldi barefla af ýmsu tagi og sum heimasmíðuð, blöstu við lögreglu á heimili annars þeirra í Austurbænum. Einnig fannst riffill og tvær afsagaðar haglabyssur. Ólöglegt er að saga framan af byssunum, en slíkt auðveldar mönnum að bera þær innanklæða. Enn er á huldu hvað mennirnir ætluðu sér með slíkt vopnabúr, en gríðarlegt magn skotfæra gefur til kynna að hér sé ekki um að ræða sakleysislega söfnunaráráttu. Lögregla kannar nú hvort þessi tæki og tól tengist innbrotum á höfuðborgarsvæðinu, en einnig eru dæmi um að vopn séu notuð sem skiptimynt í fíkniefnaviðskiptum. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn, segir að vitað sé að svona vopn hafa tengst alvarlegum ofbeldisbrotum. Það sé vel þekkt í íslenskum afbrotaheimi. Karl Steinar segir þó sjaldgæft að lögregla leggi hald á svo mikinn fjölda vopna. Þá þykir óvenjulegt að mennirnir þrír sem voru handteknir vegna málsins hafa nánast ekkert komið við sögu lögreglu fyrr. Þeir eru frá Reykjavík, Kópavogi og Austurbyggð, á aldrinum 19 til 23 ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×