Innlent

Kárahnjúkasvæðið milljarða virði

Landið sem fer undir Kárahnjúkavirkjun er að minnsta kosti tveggja milljarða króna virði. Þetta er niðurstaða þýsks hagfræðidoktors sem rannsakað hefur málið. Náttúruverndarsamtök hafa dregið í efa arðsemi Kárahnjúkavirkjunar og bent á að tekjur mætti hafa af ferðaþjónustu á þeim fallegu stöðum sem hverfa undir vatn, eins og það sem við sjáum hér. Þó vart sé hægt að meta sögulegt og menningarlegt gildi landsins hafa vísindin svar við því hvernig meta skal fjárhagslegt vermæti þess. Þýski hagfræðingurinn David Bothe hlaut doktorsgráðu sína við Kölnarháskóla fyrir að vinna slíkt mat um Kárahnjúkasvæðið. Aðferðin er kannski einfaldari en hægt var að ímynda sér. Bothe sendi spurningalista á 1000 íslensk heimili, þar sem spurt var hvort fólk væri tilbúið að greiða fyrir það að varðveita þetta svæði. Á grunni niðurstaðnanna reyndi hann að reikna út þjóðhagslegt gildi alls þessa landslags. Aðferðin sem David notaði hefur verið notuð víða um heim í um þrjá áratugi. Til að mynda er þetta meginaðferðin í Bandaríkjunum. Þess var vandlega gætt að úrtakið endurspeglaði íslensku þjóðina og gerðar voru markvissar prófanir á því til að tryggja það. Upphæðina, tveir milljarðar króna, segir David vera í neðri mörkum allra útreikninga, hún gæti verið tvöfalt eða jafnvel þrefalt hærri. Það eina sem hann er viss um er að virðið er ekki minna en tveir milljarðar króna. David Bothe mun flytja fyrirlestur um efnið í Norræna húsinu á morgun klukkan hálf fimm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×