Innlent

Framkvæmdaleyfi tekið fyrir

Framkvæmdaleyfi til handa Landsvirkjun vegna lagningar Fljótsdalslína 3 og 4 verður tekið fyrir á fundi umhverfisráðs Austur-Héraðs á Egilsstöðum í dag, fimmtudag. Sigurður Ragnarsson, formaður umhverfisráðs Austur-Héraðs, bjóst við að Landsvirkjun skili fyrir fundinn yfirliti yfir stöðu samninga fyrirtækisins við eigendur jarða sem háspennulínurnar liggja um. "Í tengslum við deiliskipulag á svæðinu var gerð krafa um að samningum við bændur væri lokið eða þá að mál þeirra væru komin í ákveðið ferli," sagði hann og bjóst frekar við að framkvæmdaleyfi til handa Landsvirkjun yrði samþykkt, reyndust þau mál í lagi. Sigurður bjóst ekki við að sveitarfélagið beitti sér sérstaklega í máli Sigurðar Arnarsonar, bónda á Eyrarteigi, sem haldið hefur því fram að nálægð við línustæði háspennulínanna geri íbúðarhús hans verðlaust. "Ég hugsa nú samt að bent verði á ákvæði í raforkulögum um að ef landeigandi telji að eignarnám varðandi línustæði hafi afgerandi áhrif á jörðina alla, þá eigi hann kröfu á að öll jörðin sé undir varðandi mat á eignarnámsbótum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×