Innlent

Hver að verða síðastur í berjamó

Nú fer hver að verða síðastur að bregða sér í berjamó, að mati Sveins Rúnars Haukssonar, læknis og sérlegs áhugamanns um berjatínslu. Hann segir áberandi mikið um aðalbláber núna en lítið um bláber og krækiber. "Ég veit ekki hvað veldur, en það kunna að vera þurrkarnir," sagði Sveinn Rúnar og bætti við að fólk þyrfti að fara að drífa sig af stað ef það ætlaði á annað borð í berjamó. "Aðalbláberin eru allvel sprottin og víða orðin stór og góð. Svo er ekki víst að þau stækki mikið meira miðað við þurrkinn sem verið hefur, heldur gætu þau bara farið að springa og skorpna." Sveinn Rúnar sagði að eins og í fyrra hefði spretta víða verið um tveimur vikum á undan áætlun og taldi einsýnt að þar spiluðu inn í breytingar sem orðnar væru á veðurfari hér, enda hafi hver mánuður verið hlýrri en í meðalári núna í 28 til 29 mánuði samfleytt. "Maður var vanur að fara í berjamó rétt undir mánaðamótin og hafði svo kannski viku þar fram yfir áður en næturfrost skullu á. Núna er þetta að verða allt upp í sex vikna tímabil." Hann sagði jafnvel brögð að því norðanlands að hafa getað farið að handtína aðalbláber í kringum 23. júlí, viku fyrir verslunarmannahelgi. "Svo er annað sem fylgt hefur veðurlaginu, ekki eins gott. Skordýralífið blómstrar og þar á meðal birkifeti, sem er 2 til 3 sentímetra löng fjölfætla," sagði Sveinn Rúnar og bætti við að sjá mætti heilu breiðurnar þar sem birkifetinn hefði eyðilegt berjalyng. "Einhvern veginn fer hann að því að eyðileggja æðakerfið á lynginu þannig að blöðin skorpna upp, verða rauðbrún og næfurþunn þannig að ekkert sést nema æðarnar." Sveinn Rúnar sagði að einnig hefði borið á óværunni í fyrra. "Þegar þetta leggst við þurrkinn er ýmis vá sem steðjar að berjasprettu," sagði hann. Sveinn Rúnar var nýkominn úr aðalbláberjatínslu í Fljótunum skammt frá Bjarnagili í Skagafirði þegar í hann náðist. Hann sagðist hafa setið við og varla hreyft sig frá smábletti í eina þrjá til fjóra klukkutíma. "Það er til marks um að berjamórinn er góður ef maður stendur sig að því að hreyfa sig ekki úr stað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×