Innlent

Hýsa mikið magn ólöglegra skráa

Full ástæða er til að telja að hérlend fyrirtæki og stofnanir hýsi mikið magn ólöglegra kvikmynda- og tónlistarskráa, að sögn Hallgríms Kristinssonar, framkvæmdastjóra Samtaka myndrétthafa á Íslandi. Hallgrímur segir að reynsla nágrannalandanna sýni að allt að helmingur fyrirtækja hýsi ólöglegt efni. "Okkar reynsla er sú að yfirmenn í fyrirtækjum eru oft á tíðum ekki meðvitaðir um þetta vandamál," segir Hallgrímur. Að sögn Hallgríms geta ólöglegar skrár valdið töluverðum vandkvæðum í tölvukerfum fyrirtækja. "Þetta er ólöglegt og því geta fyrirtæki verið skaðabótaskyld komist upp um slíkt," segir Hallgrímur. "Töluverðar líkur eru á að vírusar slæðist með efni sem tekið er af netinu auk þess sem þessar skrár eru oft á tíðum mjög stórar og geta því hægt verulega á öllu tölvukerfinu." Hallgrímur segir þó ýmislegt til ráða til þess að berjast gegn þróuninni og fyrirtæki geti með auðveldum hætti fylgst með því hvort slíkt efni finnist á tölvukerfi þeirra. Skýrar reglur hafi mikil áhrif auk þess sem í boði sé ýmiss konar hugbúnaður sem leiti uppi slík forrit í tölvukerfum fyrirtækja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×