Innlent

Nýr forstjóri LSH

Jóhannes M. Gunnarsson, skurðlæknir hefur verið settur forstjóri Landsspítala Háskólasjúkrahúss frá 1. september, en þá hefst 8 mánaða námsleyfi Magnúsar Péturssonar, forstjóra LSH. Jóhannes M. Gunnarsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra lækninga undanfarin 4 ár og tók við því starfi þegar Landspítali - háskólasjúkrahús var settur á fót árið 2000. Hann hefur verið í framkvæmdastjórn spítalans og starfað sem staðgengill forstjóra um nokkurt skeið. Í starf framkvæmdastjóra lækninga hefur heilbrigðisráðherra sett Vilhelmínu Haraldsdóttur, sérfræðing í lyflækningum og blóðsjúkdómum, en hún hefur gegnt starfi sviðsstjóra lækninga á lyflækningasviði II. Vilhelmína er menntuð í blóðlækningum í Hollandi og hefur verið starfsmaður sjúkrahússins allar götur frá árinu 1993. Niels Chr. Nielsen, svæfingalæknir, sem er staðgengill framkvæmdastjóra lækninga, hefur fremur kosið að gegna því starfi áfram. Í ljósi þeirra breytinga sem ákveðnar eru næstu 8 mánuðina, munu verkefni forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga taka nokkrum breytingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×