Innlent

Stórstjörnur í Leifsstöð

Íslenskir ferðalangar í Leifsstöð skildu ekkert í látunum þegar ljósmyndarar stukku að tveimur farþegum í tollinum. Í ljós kom að þar voru á ferð Hollywood-stjörnur sem komnar eru hingað til lands til að leika í nýrri mynd Baltasars Kormáks.  Þau Forrest Whitaker og Julia Stiles eru velþekktir leikarar og sannkallaðar kvikmyndastjörnur. Það var þó ekki á þeim að sjá þegar þau lentu í Keflavík í morgun að þar væru neinar prímadonnur á ferð. Atli Már Gylfason, ljósmyndari Víkurfrétta, smellti myndum af stjörnunum í morgun. Hann segir þau bæði hafa komið fyrir sjónir eins og venjulegt fólk og að þau hafi ekki verið súr þó hann smellti af þeim nokkrum myndum. Hann segir Stiles hafa verið ein síns liðs en Whitaker var á ferð með konu sinni. Þau eru komin hingað til lands til þess að leika í kvikmynd Baltasars Kormáks, "A Little Trip to Heaven", en tökur á henni hefjast þann 24. ágúst næstkomandi. Stiles er einkum þekkt fyrir leik sinn í myndunum Ten Things I Hate About You, Hamlet, Mona Lisa Smile og nú síðast lék hún í the Bourne Supremacy. Forrest Whitaker hefur jafnan valið sér hlutverk sem honum finnast spennandi, fremur en þau sem borga best, en hann hefur meðal annars leikið í myndunum Phone Booth, Ghost Dog, the Crying Game og Good Morning Vietnam. Með þeim tveimur í myndinni leikur svo Jeremy Renner, minna þekktur leikara sem einhverjir kannast þó hugsanlega við úr spennumyndinni SWAT.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×