Innlent

Lokanir á hreindýraveiðar

"Við verðum að meta stöðuna eftir veiðitímann og sjá hvaða endi málið fær," sagði Áki Ármann Jónsson forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar eftir heimsóknir til bænda á hreindýrajörðum á Austurlandi. Landeigendur á veiðisvæði 9 hafa viljað fá hærri arðgreiðslur vegna beitar dýranna, svo og hærri felligjöld sem greidd eru fyrir hvert fellt dýr. Því hefur ríkið hafnað á grundvelli ríkjandi reglna. Landeigendur hafa þá gripið til þess ráðs að loka jörðum sínum fyrir veiðiskap. Það hefur skapað hættu á að dýrin leiti yfir í Öræfin, sem þykir afar slæmt vegna búfjársjúkdóma. Áki Ármann sagði, að ef umræddir bændur myndu ekki heimila veiðar, yrði að taka ákvörðun eftir veiðarnar í haust. Stór hluti dýranna gengi á Flateyjarjörðinni á veiðitímanum, en bóndinn þar bannaði veiðar. Þótt dýrin gengju þarna á veiðitímanum, þá færu þau um og ættu beitarhaga á öðrum jörðum. Það væri því útilokað að Flateyjarbóndi ætti tilkall til hærri arðgreiðslna heldur en aðrir hreindýrabændur, enda bryti það gegn öllum settum reglum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×