Innlent

Íslensk geðrækt best

Geðrækt, verkefni Landlæknisembættisins, Geðhjálpar, Landspítala - háskólasjúkrahúss og Heilsugæslunnar í Reykjavík, hefur hlotið sérstaka útnefningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Genf og Alþjóðageðheilbrigðissamtakanna (WFMH) sem fyrirmyndarverkefni á sviði geðræktar. Viðurkenningin verður veitt í tengslum við alþjóðlega útgáfu bókar á vegum ofangreindra samtaka um fyrirmyndarverkefni í geðrækt á alþjóðlegri ráðstefnu um geðrækt í Auckland á Nýja-Sjálandi. Þar eru kynnt 35 geðræktarverkefni hvaðanæva að úr heiminum. Verkefnin 35 voru valin úr hópi 60 verkefna sem bárust og voru 5 verkefni útnefnd sérstaklega. Eitt þeirra, Geðrækt, kom best út og hlaut hæstu einkunn bæði hvað varðar framkvæmd og hugmyndafræði. Verkefninu Geðrækt var hrundið úr vör árið 2000 þegar Geðhjálp, Landlæknisembættið og Landspítali - háskólasjúkrahús í samvinnu við fyrirtækin Actavis, Eimskip, Landsbankann, Skeljung og Íslenska erfðagreiningu, ásamt heilbrigðisráðuneytinu og Háskóla Íslands, tóku höndum saman um rekstur þess. Síðar bættist Heilsugæslan í Reykjavík við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×