Innlent

Milljónir horfa á Latabæ

Milljónir Bandaríkjamanna horfðu á fyrsta þáttinn af Latabæ sem sendur var út í Bandaríkjunum í dag. Framleiðandi þáttanna segir þegar hafa verið rætt um framhald á þáttagerðinni. Hann segir öruggt að þættirnir verði sýndir víða um Evrópu þegar á næsta ári. Það ríkti gríðarleg eftirvænting í kvikmyndaveri Latabæjar í Garðabæ í dag. Þar hafa rúmlega hundrað manns unnið að sjónvarpsþáttunum um Latabæ í rúmlega hálft ár. Í dag var komið að frumsýningu um öll Bandaríkin á sjónvarpsstöð Nickelodeon og framleiðandinn segir að áhorfendahópurinn í dag hafi verið stór, enda eru áhorfendur Nickelodeon margar milljónir. Alls verða framleiddir 40 þættir og lýkur framleiðslunni um áramót. Framleiðandi þáttanna segir að þegar sé byrjað að ræða um framhald á framleiðslunni og hann segir öruggt að Latibær verði tekinn til sýninga á meginlandi Evrópu þegar á næsta ári. Þegar leið að frumsýningu sem send var í gegnum gervihnött til Garðabæjar, jókst spennan, tappi var tekinn úr flöskum, Solla stirða gat ekki leynt geðshræringu sinn þegar hún tjáði samstarfsmönnum sínum tilfinningar sínar og sjálfur skapari Latabæjar, Magnús Scheving, ávarpaði sitt fólk, en hann var í Bandaríkjunum með eiginkonu sinni. Síðan hófst sýningin og meira að segja hörkutólið Glanni glæpur varð meyr í hjartanu við að sjá og upplifa sjálfan sig á hinu stóra tjaldi handan við hafið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×