Innlent

Kröfur kennara eðlilegar

Laun grunnskólakennara hafa hækkað svipað og jafnvel meira en laun annarra starfshópa á síðustu árum. Þeir fara engu að síður fram á meiri hækkun en um samdist hjá félögum ASÍ í vor og er verkfall grunnskólakennara yfirvofandi í næsta mánuði takist ekki að semja. Vakið hefur athygli að kröfur kennara eru talsvert hærri en þær launahækkanir sem um samdist í vor á milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, tekur þeirri gagnrýni létt og segir kennara ekki vera aðila að þeim samningum, kröfur kennara séu settar fram á eigin forsendum.Hann segir eðlilegt að orðið verði við kröfum kennara. Ef litið er á þróun launa frá ársbyrjun 2001 og fram til síðasta árs má sjá að kennarar hafa hækkað meira en margir aðrir hópar samfélagsins, og eru um það bil um miðbikið. Þeir hafa til að mynda hækkað meira en sem nemur meðaltalshækkun launa á þessu tímabili. Það er því kannski eðlilegt að spurt sé af hverju kennarar þurfi að fá meiri launahækkun en aðrir núna. Eiríkur segir að settar hafi verið fram krafa um að byrjunarlaun þrítugs kennara yrðu eftir þrjú ár, árið 2007, 250 þúsund krónur. Í raun sé verið að setja fram þá kröfu að menn hafi um 160 - 170 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur út úr sínum grunnlaunum á árinu 2007. Eiríkur skilur ekki af hverju sú krafa sé gagnrýnt. Eiríkur segir að tveir óformlegir fundir um styttingu vinnutíma verði haldnir í fyrrihluta þessarar viku og að deilendur hittist hjá sáttasemjara á fimmtudagsmorgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×