Innlent

Óttast ekki öryggi áhorfenda

Formaður KSÍ segist engar áhyggjur hafa af öryggi gesta á Laugardalsvellinum á miðvikudaginn, en þá á að slá aðsóknarmet. Íslendingar leika þá vináttulandsleik við Ítali og er búist við að allt að því 20 þúsund manns komi á völllinn. Þar sem um vináttulandsleik er að ræða er KSÍ heimilt að selja aðgöngumiða í stæði og hefur stefnan verið sett á að slá metið, sem sett var 18. september árið 1968. Þá mættust Valur og portúgalska liðið Benfica. 18.194 mættu á völlinn. Heldur þröngt var um vallargesti árið 1968, sem komu sér jafnvel fyrir ofan á klukkunni. Þau börn sem fóru á leikinn sáu lítið nema helst hnésbæturnar á þeim fullorðnu. Í dag eru um 7000 stúkusæti svo að koma þarf tólf þúsund manns fyrir í stæðunum til að aðsóknarmetið falli. Stúkusætin eru löngu uppseld og búið er að selja á milli 5 og 7 þúsund miða í stæði. Eggert Magnússon, formaður stjórnar KSÍ, segir að búið sé að hugsa málið hvernig eigi að koma öllu þessu fólki fyrir. Verið sé að byggja upp fleiri stæði og sér svæði verði fyrir börn til að þau geti séð eitthvað til. Vörubretti verða notuð til að búa til palla í stæðunum, og þeim verður líka komið fyrir, fyrir framan stúkurnar. Eggert segist ekki óttast um öryggi gestanna, jafnvel þótt þeir verði 20 þúsund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×