Innlent

Óttast stökkbreytingu á veirunni

Hjá landlæknisembættinu liggur fyrir viðbúnaðaráætlun vegna fuglaflensu sem geisað hefur í Asíu. Þrír hafa látist í Víetnam á árinu eftir smit úr hænsnafuglum. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir viðbúnaðarstig sem í gildi er hér miða við að ný tegund veiru sé farin að smita menn en smitist ekki enn manna á milli. Berist fuglaflensa í hænsni hér eða upp kemur nýr inflúensustofn, segir hann að gripið verða til frekari ráðstafana. "Vandamálið liggur í hversu erfiðlega hefur gengið að útrýma þessari pest í hænsnafuglum í Asíu," segir Haraldur en ekki er talið að mennirnir sem létust eftir smit í Víetnam hafi smitað út frá sér. Hann segir helst óttast að fuglaflensuveiran taki stökkbreytingum í fólki eða öðrum millihýsli og verði að heimsfaraldri, inflúensu. Slíkur faraldur gæti lagt milljónir manna að velli um heim allan. "Auðvitað aukast alltaf líkurnar á einhverri uppstokkun í veirunni eftir því sem fuglaflensan varir lengur," segir Haraldur. Landlæknisembættið hefur ekki gefið út sérstakar viðvaranir til fólks vegna ferða til svæða þar sem fuglainflúensa geisar, en mælist þó sem fyrr til þess að ferðamenn forðist þar fuglamarkaði, búgarða og snertingu við lifandi hænsnafugla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×