Innlent

Ekki aftur til fortíðar

Frekari fundahöld framsóknarkvenna um fyrirhuguð ráðherraskipti innan flokksins eru meðal þess sem rætt verður á fundi framkvæmdastjórnar Landssambands framsóknarkvenna (LFK) í dag. Una María Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri LFK, segir þessi mál nokkuð mikið rædd meðal framsóknarkvenna þessa dagana, en á málþingi sem sambandið stóð fyrir um málið í maí kom fram sú hugmynd að konur kæmu aftur saman og ræddu málið enn frekar. "Við viljum flokknum okkar vel og það er skoðun margra að það skipti máli að konur séu fleiri og ekki settar út úr ríkisstjórn," segir Una María og vísar meðal annars til ályktunar málþingsins frá því í maí. Þá segir Una María mikilvægt að missa ekki niður fylgisaukningu flokksins meðal kvenna sem könnun LFK eftir síðustu kosningar hafi sýnt. "Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að flokkurinn ætli að hverfa aftur til fortíðar og fækka konum í sínu ráðherraliði. Við þurfum alls staðar að vinna að því að fjölga þeim þannig að þær verði nokkurn veginn til jafns við karla í stjórnunarstöðum og í störfum fyrir flokkinn," segir Una María.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×