Innlent

Slökkviliðsdagurinn í dag

Hús fullt af reyk, bílar klipptir í tætlur, öflugustu vatnsbyssur sem völ er á og gott útsýni úr körfubíl var meðal þess sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kynnti fyrir fólki á slökkviliðsdeginum í dag. Fjölmenni var við verslunarmiðstöðina Fjörðinn í Hafnarfirði í dag og þar mátti sjá tæki slökkviliðsin, allt frá byrjun síðustu aldar. Gestum bauðst að skoða öll þessi tæki, fá blóðsykur og blóðþrýsting mældan og hvaðeina. Höskuldur Einarssson stöðvarstjóri segir tilganginn aðallega að kynna starfsemi slökkviliðsins, hvað þeir geti gert fyrir borgarbúa almennt og leyfa þeim að sjá tæki allt frá árinu1907. Mikill áhugi virtist vera hjá fólki að sjá hvað slökkviliðsmenn gera. Þeim bauðst að fara upp með körfubílum, fara í gegnum hús full af reyk og margt fleira. Höskuldur segir slökkviliðið vel tækjum búið og allar stöðvar voru fullmannaðar í dag, þannig að það hefði lítil áhrif haft á sýninguna þótt nokkuð stórt útkall hefði orðið. Eins og kunnugt er voru slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sameinuð fyrir fáeinum árum og því má búast við að sýningar á við þessa verði í fleiri sveitarfélögum á næstu árum. Segja má að slökkviliðið sé stofnun sem sé vel liðin, en enginn vilji eiga viðskipti við. Höskuldur telur að allir yrðu ánægðir ef þeir þyrftu ekki að gera neitt. Hins vegar sé alveg sama hvað þeir séu beðnir um að gera - þeir geri það. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×