Innlent

Tæmdi sjóði umhverfisráðuneytisins

Unnið er að endurbótum á bryggjunni í Drangey á Skagafirði. Drangeyjarjarlinn, Jón Eiríksson, segist hafa tæmt sjóði umhverfisráðuneytisins en þaðan fékk hann 100 þúsund króna styrk til verksins. Bryggjan í Drangey laskaðist í óveðri síðastliðinn vetur þegar hafrótið náði að brjóta bryggjuna sjálfa og landganginn. Hópur manna undir forystu Jóns Eiríkssonar hafa ráðist í að steypa landganginn á nýjan leik, en steypuvinnan er með heldur óhefðbundnu sniði. Sement og möl þarf að flytja með bát til eyjarinnar, því er svo mokað upp og hrært á staðnum.  Aðspurður hvort þasð sé ekki óðs manns æði af manni á áttræðisaldri að standa í slíkum framkvæmdum segir Jón það að sjálfsögðu vera svo, en þeir sem vinni með honum skemmti sér sæmilega - og hann sjálfur reyndar líka. Jón segir „Magnús vin sinn“ hjá umhverfisráðuneytinu hafa tæmt kassa ráðuneytisins með því að gefa vinnuflokknum 100 þúsund króna styrk, og hann segir að hann ætti að duga fyrir efniskostnaði. Kostnaðurinn sé reyndar bara smápeningur, alla vega miðað við andlitslyftingu á konu sem kosti yfir fimm milljónir að sögn Drangeyjarjarlsins.   Jón hefur sigið í Drangey í hálfa öld og ferjað fólk til eyjarinnar síðustu ár. Hann segist ekki hafa orðið var við aukinn fjölda erlendra ferðamanna - hins vegar séu Íslendingar enn duglegir að heimsækja Drangey. Þeir hafi greinilega uppgötvað að þangað sé gott að koma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×