Innlent

Bandaríkjaförum bönnuð blóðgjöf

Þeir sem dveljast í Norður-Ameríku á tímabilinu frá byrjun júní til nóvemberloka mega ekki gefa blóð fyrr en mánuði eftir að heim er komið vegna ótta við Vesturnílarsótt. Vesturnílarsótt hefur fundist í Evrópu, meðal annars í tveimur Írum sem dvalið höfðu í Portúgal, en þessi sótt hefur breiðst út í Norður-Ameríku undanfarin ár. Hún berst einkum í menn með skordýrabiti, til dæmis moskítóbiti. Einkenni veikinnar eru höfuðverkur, hár hiti, hnakkastífni, máttleysi rugl og krampar. Vegna þessa hafa þær reglur verið settar í Blóðbankanum í Reykjavík að þeir sem dvalist hafa í Norður-Ameríku frá 1. júní til 30. november ár hvert megi ekki gefa blóð fyrr en mánuði eftir heimkomu. Að sögn Sveins Guðmundssonar, yfirlæknis Blóðbankans, hafa engin slík tilfelli greinst hér á landi og verið sé að framfylgja ámóta reglum og gildi í löndunum í kringum okkur. Í tilkynningu segir að engin ástæða sé til að vara ferðamenn við því að ferðast til Norður-Ameríku eða Evrópu, en ástæða sé til að vekja athygli ferðamanna um sumar og haust að forðast moskítóbit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×