Innlent

Íslensk skip á svartan lista

Sjávarútvegsráðherra Noregs segir að öll íslensk skip, sem halda áfram veiðum við Svalbarða eftir daginn í dag, verði sett á svartan lista. Fimm íslensk skip eru nú á svæðinu. Sjávarútvegsráðherra Noregs er á Íslandi en enginn fundur er fyrirhugaður með honum og íslenska sjávarútvegsráðherranum. Ágreiningur er á milli Íslands og Noregs varðandi síldveiðar á svæðinu við Svalbarða en Íslendingar vilja ekki sætta sig við þann kvóta sem Norðmenn hafa sett. Norðmenn segja að íslensk skip verði að hætta veiðum á þessu svæði í kvöld og hafa sent nokkur varðskip þangað. Núna eru fimm íslensk skip á þessu svæði og ekkert fararsnið á þeim. Svein Ludvigsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir í samtali við Dagens Næringsliv að þau íslensku skip sem haldi síldveiðum við Svalbarða áfram eftir miðnætti verði sett á svartan lista. Hann undrast afstöðu íslenskra stjórnvalda og það geti varla þjónað hagsmunum Íslendinga að vinna gegn rétti strandríkja hvað varðar sjávarútveg og hafrétt. Ludvigsen kom til Íslands í dag en hefur ekki svarað beiðnum Stöðvar 2 um viðtal. Erindi hans hingað er að sitja fund samstarfsráðherra Norðurlanda á Egilstöðum á morgun. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra vissi ekki af Íslandsför ráðherrans þegar Stöð 2 ræddi við hann í dag. Árni sagði að enginn fundur væri fyrirhugaður þeirra á milli, enda væri málið í höndum utanríkisráðuneyta landanna. Myndin er af skipum á Svalbarða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×