Innlent

Paradís á jörð

Hornstrandir skarta sínu fegursta í veðurblíðunni um þessar mundir. Töluverður fjöldi fólks hefur lagt leið sína á Hornstrandirnar í sumar til þess að njóta hrikalegrar náttúru og einstaks landslags. Fréttaritari Stöðvar 2 á Vesturlandi brá sér í göngu um Hornstrandir á dögunum ásamt hópi vaskra manna og kvenna. Náttúrufegurðin á svæðinu er einstök og ekki að undra að margir telji Hornstrandir fallegasta stað landsins. Í hrikalegum björgunum er fuglalífið fjölskrúðugt og lifnaðarhættir fuglanna toguðu í einhverja ferðalanganna sem hættu sér ansi nálægt þverhníptri bjargbrúninni. Á svæðinu frá Hesteyri til Hornvíkur bjuggu eitt sinn yfir 500 manns en þjóðfélagsbreytingar urðu þess valdandi að svæðið lagðist í eyði. Síðan hafa húsin verið notuð til sumardvalar og ljóst að ferð um Hornstrandir verður vinsælli með hverju árinu, enda nú boðið upp á gönguferðir með leiðsögn um svæðið nær daglega. Hagerup Isaksen leiðsögumaður telur það vera draum flestra Íslendinga sem komnir séu til ára sinna að komast á Strandir og hann heldur að það sé raunhæfur möguleiki fyrir flesta. Aðspurður hvort þetta sé erfið ganga segir hann svo ekki vera og aðeins um það bil dagslöng. Hagerup segir Hornstrandir vera paradís á jörð og hann uni sér hvergi betur og ófáir, sem þangað hafi farið, séu honum sammála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×