Innlent

Ólympíuleikarnir settir í kvöld

Ólympíuleikarnir í Aþenu verða settir með formlegum hætti í kvöld. Björk Guðmundsdóttir syngur lag á opnunarathöfn Ólympíuleikanna þar sem saman verða komnir 75.000 áhorfendur úr öllum heimshornum.  Það verður mikið um dýrðir laust fyrir klukkan sex í kvöld að íslenskum tíma þegar opnunarathöfn Ólympíuleikanna hefst. Eins og við var að búast verður Ólympíuleikvangurinn í Aþenu sneisafullur af fólki, hvaðanæva úr heiminum, jafnt hefðarmönnum sem almúgafólki. Alls munu fulltrúar 202 þjóða ganga um leikvanginn í kvöld undir tónlist og lófataki frá 75.000 áhorfendum. Síðastir inn á leikvanginn verða íþróttamenn gesgjafanna Grikkja. Athöfnin í kvöld verður einn stærsti viðburður sinnar tegundar frá upphafi, enda koma alls yfir 4000 skemmtikraftar að athöfninni þar sem Grikkland til forna og nútíminn mætast í mikilli sjónrænni veislu. Einn skemmtikraftanna sem kemur fram er Björk Guðmundsdóttir sem mun syngja lag af væntanlegri plötu sinni, Medúlla. Höfundur lagsins er skáldið Sjón en lagið verður flutt í lítið eitt breyttri útgáfu í kvöld. Skiljanlega ríkir þó nokkur spenna í loftinu fyrir athöfnina hjá íslensku íþróttamönnunum sem komnir eru til Aþenu og segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íþróttasambands Íslands, alla hlakka mikið til kvöldsins. Eftirvæntingin er jafnvel meiri vegna þátttöku Bjarkar í opnunarathöfninni að sögn Stefáns. Hægt er að hlusta á brot úr viðtali við Stefán úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×