Innlent

Langhæsta stífla landsins

Bráðabirgðavarnarstíflan við Kárahnjúka, sem nú hefur væntanlega lokið hlutverki sínu að mestu, er langhæsta stífla á landinu. Um þrjú þúsund malarhlöss af venjulegum vörubílum þurfti í hækkunina eftir að flóðin byrjuðu.  Flóðið í Jöklu í gærkvöldi var mun minna en í fyrrakvöld og náði ekki upp í brúargólfið sem fór á kaf í fyrrakvöld. Flóðahættan virðist liðin hjá og er það í samræmi við reiknilíkan verkfræðistofunnar Vatnaskila um framvindu mála. Eftir stendur nú varnargarðurinn sem er orðinn rúmlega 50 metra hár eftir að hann var hækkaður um samtals sautján metra í tveimur áföngum eftir að flóðin byrjuðu. Hann er talsvert hærri en Blöndustífla sem var hæsta stífla á landinu. Hátt í 40 þúsund rúmmetra af efni þurfti í hækkunina en venjulegur vörubíll tekur ekki nema um tíu rúmmetra. Risatrukkarnir á virkjunarsvæðinu taka hins vegar margfalt meira hver. Efnið í hækkunina var bæði tekið í námum á svæðinu og úr göngum þar sem borar hafa farið um. Ljóst er að kostnaðurinn hleypur á tugum milljóna króna sem væntanlega fellur á Landsvirkjun því verktakinn ber ekki ábyrgð á hönnunarforsendum. Framkvæmdir við undirstöður aðal stíflunnar í gljúfrinu, neðan varnargarðsins, sem nú eru komnar í fullan gang, töfðust einnig um viku. Brúin yfir Jöklu verður væntanlega opnuð almenningi á ný um eða eftir helgi þegar lokið verður við lagfæringar á henni eftir ágang vatns og jakahröngls.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×